top of page

Ljóð um matarvenjur

​

​

​

​

 

Vísindamenn geta breytt hnetusmjöri í demanta en þeir geta ekki hjálpað okkur að melta demantana; vísindamenn geta sogið úr okkur fituna og stytt á okkur garnirnar en ef við étum demanta skítum við þeim samt út heilum, jafnt þótt þeir séu gerðir úr hnetusmjöri, við því er ekkert að gera; Ítalski fútúristinn FT Marinetti borðaði ekki spagettí, því spagettí veldur mönnum ástríðuleysi, spagettí gerir þá uppþembda og lata og illa til þess fallna að þramma til stríðs; þýski nasistinn Adolf Hitler borðaði ekki dýr vegna þess að þýska nasistanum Adolf Hitler fannst dýrin sæt. Það var nú bara þannig, hvernig sem á því stendur, aðrir tímar og önnur mórölsk viðmið. Síonistar gera betra falafel en fasistar en fasistar gera betri pastarétti; fasistar gera vonlausan hafragraut og kúskús á fasíska vísu er óþverri; kennslukonur baka að jafnaði betra sætabrauð en vörubílstjórar en vörubílstjórar steikja blóðugri steikur og borða fleiri franskar, þeir borða meira majones en kennslukonurnar sem eru þó líklegri til að hræra sitt majones sjálfar. Nasistar eru gjarnan grænmetisætur sem borða mikið súrkál, gjarnan gefnari fyrir útlenskari mat en þeir kæra sig um eða viðurkenna, nasistar eru með til þess að gera venjulega bragðlauka og skoðun þeirra á því hvaða síonistar gera besta falafelið er jafngild og hverra annarra; arabarnir geta ekki vitað allt og ekki borða þeir steikt flesk með steinseljusósu, það gera Danir, alvöru prinsreykjandi dansk-folkeparti-Danir með Dannebrogtattú á Kristjaníuhjólum. Hvernig sem á því stendur. Allir Svíar sem ég þekki eru með glútenofnæmi og/eða mjólkuróþol og/eða veganisma, sérstaklega Finnlandssvíarnir, sérstaklega þeir sem borða gerbrauð en ekki súrdeigs, sérstaklega þeir sem drekka mikinn bjór og ólust upp á brotnum heimilum í hverfum þar sem nú er töluð Rinkebysænska; Þjóðverjar borða stórar pylsur á litlum pappadiskum undir U-bahnstöðvum Berlínarborgar og skola þeim niður með hveitibjór og majonesi sem hrært er í verksmiðju þar sem tíu þúsund bæverskar kennslukonur standa vaktina, dag og nótt, og salta majoið með tárum sínum; sagt er að kúbanskir Montecristo-vindlar fái einstakan keim sinn af því að vera vafðir á lærum hreinna meyja; feta er ekki feta nema það sé Grikki sem mjólkar geitina og skyr er ekki skyr nema það sé framleitt á hrjóstrugum kletti í Atlantshafinu og wasabi er svo til aldrei wasabi heldur yfirleitt grænlituð piparrót; tölfræðilega ólust samkynhneigðir karlmenn upp í faðmi grænmetisætna og borðuðu þar mikinn ferskan fisk, nýslægðan og soðinn með gát. Hvernig sem á því stendur. Kommúnistar héldu því fram að alþýðan gæti lifað á kartöflum og útivist en svo hrundu Sovétríkin og í dag er engin leið að þekkja kommúnista frá hassreykjandi vegana með sojalatte í inniskóm; á Grænlandi át enginn ávexti svo árþúsundum skipti, í mesta lagi nokkur bláber, og á annarri og minni eyju lifði Róbinson Krúsó mikið til á skjaldbökueggjum með skelfilegum afleiðingum fyrir dýraríkið á svæðinu, því hlutfallslega þurfti Krúsó jafn mikið af skjaldbökueggjum og frystitogari þarf af þorskflökum. Frakkar borða helst ekki mat sem hægt er að útskýra á innan við tuttugu mínútum, nema þarna náunginn sem borðaði aðallega innkaupakerrur og sjónvörp, en líka heila CESSNA 150 flugvél, ekki að það verði svo auðveldlega útskýrt, og á Spáni setja mæður falangista saffran og reykta papriku í nærri því allt á meðan Lýðveldisherinn étur tapas. Hvítvoðungar drekka fyrst um sinn ekkert nema móðurmjólk og móðurmjólk inniheldur öll þau næringarefni sem nauðsynleg eru mannslíkamanum, hvernig sem á því stendur, ekki síst níðþungar omega 3 fitusýrur sem hvítvoðungar sjúga úr heilum mæðra sinna svo heilarnir léttast um allt að 25% ef mæðurnar gæta sín ekki og drekka lýsi, íslenskt lýsi, hvernig sem á því nú annars stendur. Annars verða mæðurnar ringlaðar og þetta heitir á íslensku að vera með brjóstaþoku og þess vegna eru kvenkyns forstjórar með svona lág laun. Meðalmaðurinn ― og þá jafnt nasistar, hvítvoðungar, fútúristar Grænlendingar, Frakkar, forstjórar, samkynhneigðir og/eða aðrir ― já meðalmaðurinn étur um 35 tonn af fæðu um ævina og hendir jafn miklu í ruslið. Eitt egg í munninn, eitt í ruslið; eitt croissant í munninn, eitt í ruslið; eitt kebab í munninn, eitt í ruslið og svo framvegis. Í hverri máltíð sem þessi meðalmaður étur eru að meðaltali 150 milljón kílómetrar af erfðaefni sem er nógu langt til að það mætti strengja alla leiðina til sólarinnar. Ekki að það sé hægt en þið sjáið þetta kannski fyrir ykkur. Alla leið til sólarinnar. En hvað um kjötæturnar, spyrjiði kannski, hvers vegna segir hann ekkert um kjötæturnar? Hvers vegna er hér ekkert rætt um þá sem kjósa blóðugar steikur, tartare de bœuf og gæsalifur? Hvar er öll harðvítuga krítíkin á pylsur fullar af iðnaðarsalti, aðbúnað kjúklinga og vímuefnalausar geldingar grísa? Hvað myndi Adolf segja? Til er kristið fólk sem borðar ekki rækjur vegna þess að það er bannað í Biblíunni og sumar grænmetisætur borða kjúkling vegna þess að kjúklingur er eiginlega ― þegar maður spáir í það ― bara brokkolí sem verpir eggjum; eins undarlega og það kannski hljómar. Þeir sem sleppa kolvetnum úr mataræði sínu grennast kannski og verða sætir en þeir svelta heilann og það langar í raun engan að sofa hjá heimskingjum, það er ekki nærri því jafn skemmtilegt og af er látið. Fólk sem er með áunna sykursýki þarf að þola mikla fordóma af hendi þeirra sem eru með meðfædda sykursýki. Fólk sem ælir stórum hluta þess sem það étur nýtur lítils skilnings í samfélaginu. Þeir sem lifa á kaffi og sígarettum líta niður á þá sem þykjast of góðir til að reykja. Íslenskir bændur borða aðallega blóðgraut, þess vegna eiga þeir svona gott með að skilja veðurfarið og tala við skepnur; offitusjúklingar ljúga til um hvað þeir éta mikið, sagt er að þeir éti jafnvel í einhvers konar móki ― offituþoku ― og bæli jafn óðum það sem þeir kaupa, það sem þeir elda, það sem þeir bera fram, éta og skíta að síðustu. Bandaríkjamenn eru upp til hópa illa haldnir af því sem nefnist Chinese Food Syndrome og lýsir sér í ómælanlegri viðkvæmni fyrir MSG; þeir gúffa í sig súkkulaði um nætur, vítamínbættum chia-fræjahristingum á daginn og kjúklinganöggum í kvöldmat, hamingjukjúklinganöggum sem ganga frjálsir utanhúss. Sérfræðingar segja að maður eigi aldrei að borða neitt sem „amma manns hefði ekki geymt í búrinu sínu“. Sérfræðingar segja að maður eigi aldrei að borða neitt sem maður er of latur til að gera frá grunni. En barnaníðingar? Hvað borða barnaníðingar? Borða þeir kannski börn? Veit það einhver? Borða þeir í laumi? Og borða auðjöfrar í hlutfalli við tekjur sínar eða eru það hinir ― fátæklingarnir? Við þessu einsog svo mörgu öðru fást kannski engin svör en það er samt mikilvægt að einhver spyrji, að við sýnum því dálitla athygli hvað það er sem við sturtum ofan í kokið á okkur. 

 

Og svo framvegis og svo framvegis. 

​

Úr Óratorrek (Mál & menning, 2017)

00:00 / 09:38
bottom of page